HeimLög samtakanna

Lög samtakanna

1. gr. Samtökin heita Lífið, samtök um líknarmeðferð. Heimilisfang og varnarþing er í Kópavogi en umdæmi þess er allt landið.

2. gr. Markmið félagsins er að stuðla að framförum á sviði líknarmeðferðar samkvæmt skilgreiningu Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunarinnar (sjá viðauka). Félagið vinnur að framangreindu markmiði með því að:

  • Kynna líknarmeðferð sem gilt meðferðarúrræði fyrir langveika einstaklinga.

  • Stuðla að bættri menntun heilbrigðisstétta á sviði líknameðferðar.

  • Stuðla að og standa fyrir ráðstefnum og fræðslu um líknarmeðferð.

  • Hvetja til og styrkja rannsóknir á sviði líknarmeðferðar. Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

3. gr. Félagið er ætlað þeim sem hafa menntun á sviði heilbrigðis, félags- eða sálarfræði, eða öðrum sem fást við líknarmeðferð í starfi sínu. Umsókn um aðild skal berast stjórn félagsins og samþykkjast á næsta stjórnarfundi af meirihluta stjórnarmanna. Félagið skal sækja um aðild að „NORDISK FÖRENING FÖR PALLIATIV VARD“. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast stjórn félagsins. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld í tvö ár samfellt, jafngildir það úrsögn úr félaginu og verður hann strikaður út af félagaskrá við lok seinna ársins. Brjóti félagi gegn siðareglum síns stéttarfélags eða lögum félagsins má víkja honum úr félaginu en tillaga þar um skal borin upp á aðalfundi og þarf samþykki 4/5 hluta fundarmanna.

4. gr. Stjórn félagsins skipa 5 stjórnarmenn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, meðstjórnandi og tveir varamenn. Miða skal við að í stjórninni sitji fulltrúar sem flestra starfsstétta. Kjörtímabil er tvö ár, skulu tveir ganga úr stjórn annað árið en þrír hitt. Formaður skal kosinn sérstaklega, að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Varamenn sitji stjórnarfundi. Kjörtímabil varamanna er tvö ár, einn gengur út annað árið en annar hitt. Einfaldur meirihluti ræður kjöri.

5. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins og skal haldinn í apríl ár hvert. Til hans skal boðað skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Fundarstjóri kosinn.

  2. Skýrsla stjórnar.

  3. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.

  4. Kosning stjórnar.

  5. Tilnefning eins endurskoðanda.

  6. Ákvörðun félagsgjalda.

  7. Lagabreytingar.

  8. Önnur mál.

Atkvæðisrétt hafa þeir félagar sem sitja aðalfund og greitt hafa félagsgjald.

6. gr. Lagabreytingar verða einungis gerðar á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund og sendast út til félagsmanna með fundarboði aðalfundar. Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þurfa 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi að greiða tillögunni atkvæði sitt.

7. gr. Slíta skal félaginu á fundi sem til þess hefur verið boðaður ef 2/3 hlutar félaga óska þess. Sæki 2/3 hlutar atkvæðisbærra félaga ekki slíkan fund, boðar stjórn til aðalfundar innan 30 daga og er þá hægt að slíta félaginu ef 2/3 hlutar mættra atkvæðisbærra fundarmanna samþykkja að leggja félagið niður. Eignum félagsins skal þá ráðstafað í samræmi við ákvörðun meirihluta fundarmanna.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins þann 16. apríl 1998. Bráðabirgða ákvæði: Stofnfélagar eru þeir sem taka þátt í stofnfundi og/eða þeir sem gerast félagar fyrir 1.september 1998.

Viðauki við lög Samtaka um líknarmeðferð á Íslandi
Samþykkt 16.apríl 1998.

Skilgreining á líknarmeðferð byggð á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO): Líknarmeðferð er meðferð sem tekur til allra þátta umönnunar sjúklings þegar lækningu verður ekki lengur við komið. Mestu skiptir að lina þjáningar vegna verkja og annara einkenna ásamt því að sinna sálrænum, félagslegum og andlegum þörfum hins sjúka.

Markmið líknarmeðferðar er að stuðla að sem mestum lífsgæðum sjúklings og aðstandenda hans. Margar aðferðir líknarmeðferðar eiga við samhliða læknandi meðferð. Líknarmeðferð miðar að varðveislu lífs, jafnframt því sem litið er á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Markmið líknarmeðferðar er hvorki að lengja líf né flýta dauða. Líknarmeðferð er meðferð einkenna sem tengir samhliða umönnun líkamlegra, félagslegra, sálrænna og andlegra þátta og hjálpar markvisst hinum sjúka til þess að lifa eins innihaldsríku lífi og unnt er fram í andlátið og styður fjölskylduna til sjálfsbjargar í sjúkdómsferli og sorg. Geislameðferð, lyfjameðferð frumueyðandi lyfja og skurðaðgerð getur verið hluti líknarmeðferðar sé þess ávallt gætt að árangur meðferðar sé meiri en aukaverkanir.

Í líknarmeðferð er ekki litið á sjúkdóm sem afmarkaða truflun á starfsemi líkamans, heldur horft til þeirrar þjáningar sem sjúkdómurinn veldur og áhrif hennar á fjölskyldu sjúklings. Fjölskyldan öll er meðferðareining en ekki einungis hinn sjúki. Jafnframt er fjölskyldan hvött til þess að taka virkan þátt í umönnun sjúklings. Líknarmeðferð er teymisvinna, þar sem allir innan teymisins gegna ákveðnu hlutverki.

Uppfært jan. 2010 / ÁÞ